Í vikunni fór fram 2. umferð í GTS Iceland, en sem fyrr var keppt á þriðjudags- og miðvikudagskvöldum. Keppnisbraut vikunnar var hin japanska Kyoto Driving
Park - Yamagiwa, en brautin er hugarsmíð Polyphony Digital, framleiðenda leiksins. Yamagiwa einkennist af löngum hröðum beygjum og þykir framúrakstur sérlega vandasamur. Það er því mikilvægt sem aldrei fyrr að eiga góða tímatöku og/eða ná góðu viðbragði af ráslínu þegar keppni hefst.
En við skulum vinda okkur í keppnir vikunnar og byrjum á Tier 3.
Tier 3
- Horfðu á keppnina HÉR
10 keppendur mættu til leiks í 2. umferð Tier 3 deildarinnar, tveimur færri en síðast. Ingvar Rúnar náði ráspól í tímatökum, 0.3 sekúndum á eftir Adélio, sigurvegara síðustu keppni, sem var ræsti annar. Keyrt er á Gr.3 keppnisbílum að vanda.
Þegar keppnin fór af stað fór Adélio strax að pressa hart á Ingvar, en sá síðarnefndi varðist vel framan af og hélt Adélio í skefjum. Eins og segir hér að ofan þá er framúrakstur á brautinni mjög vandasamur, og það var ekki fyrr en Ingvar gerði mistök sem Adélio náði að stinga sér framfyrir hann og upp í 1. sæti. Forystunni hélt hann til loka og sigraði keppnina, ásamt því að ná hraðasta hring í keppni. Fullt hús stiga er því staðreynd fyrir Adélio, aðra keppnina í röð. Ingvar endaði nokkuð öruggur í 2. sæti.
Hákon og Dimmi voru í baráttunni um 3. sætið þar sem Dimmi hafði betur, og enduðu þeir í 3. og 4. sæti.
Hér má sjá úrslit og stöðu leika í Tier 3:
Adélio vermir toppsætið sem stendur með fullt hús stiga, 52 talsins. Ingvar er í 2. sæti með 8 stiga forskot á Hákon og Dimma, sem voru ekki bara að berjast um 3. sætið í keppninni, en þeir eru einnig jafnar að stigum í 3.-4. sæti í stigakeppninni eftir fyrstu tvær umferðir tímabilsins. Efstu þrír keppendur Tier 3 í lok Vetrartímabils fá val um að færa sig upp í Tier 2 deildina á Vortímabili ef þeir hafa áhuga á því, þannig það er til mikils að vinna.
Tier 2
- Horfðu á keppnina HÉR
Kvöldið eftir hófst dagskráin með Tier 2 deildinni. Rétt eins og í Tier 3 þá eru keyrðir keppnisbílar í Gr.3 flokki. Eitthvað var um forföll, en 4 keppendur vantaði á ráslínu þegar keppni hófst. Báðir ökumenn liðsins SV Racing, Sigurður Ágúst og Vilhjálmur, voru fjarverandi, sá fyrrnefndi vegna meiðsla en síðarnefndi var fastur í vinnu. Gunnar Karel lenti í samskonar vandamálum og síðast, einhverjum net-tengdum vandræðum og gat ekki hafið keppni. Sama átti við um Ingólf, sem því miður átti við sama vandamál að stríða.
Það voru því aðeins 10 keppendur sem tóku þátt í þetta skiptið. Ásgeir (SS Racing) endurtók leikinn frá því síðasta og nældi í ráspól, með Óttar Örn (2. sæti) og Arnar (3. sæti) á eftir sér. Keppnin var tíðindalítil fyrir Ásgeir, á góðan hátt, þar sem hann keyrði örugglega til sigurs og leiddi keppnina frá upphafi til enda. Hraðasta hringinn þurfti hann þó að láta eftir til Óttars, sem endaði í 2. sæti og með hraðasta hring. Síðasta þrepið á verðlaunapallinum fór til Arnars í Team TRB.
Keppnin gekk almennt vel fyrir sig, en var heldur rólegri en opnunarkeppnin fyrir tveimur vikum þar sem dramað náði hámarki á síðustu metrunum.
Hér má sjá úrslit og stöðu leika í stigakeppni ökumanna og liða:
Eftir fyrstu tvær umferðir tímabilsins er Ásgeir kominn með þægilega stöðu og situr á toppnum. Óttar er einnig nokkuð vel settur í 2. sætinu, en baráttan um 3. sætið er ögn harðari eins og staðan er núna. Það er þó nóg eftir, enda aðeins tvær umferðir af átta yfirstaðnar.
Í liðakeppninni er það SS Racing með þá Ásgeir og Sævar innanborðs sem leiðir, en Team TRB, þeir Ingi og Arnar, eru ekki langt undan.
Tier 1
- Horfðu á keppnina HÉR
Eins og alltaf þá er það Tier 1 sem "slúttar" partýinu. Ólíkt Tier 2 og 3, þá eru nokkrir mismunandi flokkar af keppnisbílum keyrðir yfir tímabilið og var í þetta skiptið keyrt um á bílum úr Gr.2 flokknum, sem eru SuperGT (GT500) bílar.
Allir fimmtán keppendur deildarinnar mættu til leiks og sjaldan hefur hópurinn verið jafn þéttur. Í tímatökunum munaði ekki nema hálfri sekúndu milli 1. og 8. sætis, þannig hér þurfti að kreista hvert einasta sekúndubrot til að enda ofarlega.
Það var hann Hlynur sem hreppti ráspólinn, en hann setti sinn besta tíma á síðasta tímatökuhring sínum. Halli þurfti því að láta sér nægja að ræsa í 2. sæti og Kári Steinn í 3. sæti. Ekki munaði nema 0.038 sekúndum á milli þeirra þriggja, og það setti svolítið tóninn fyrir keppnina.
Þetta gífurlega öfluga tríó var meira og minna í slagnum um efstu þrjú sætin alla keppnina. Það hleypti aukinni spennu í leikinn þegar það kom í ljós að Kári var á öðru keppnisplani, en hann, ásamt flestum öðrum keppendum, kaus að taka tvö þjónustuhlé, á meðan Halli og Hlynur stoppuðu aðeins í eitt skipti. Þetta varð til þess að þegar seig á seinni hluta keppninnar var Kári á nýrri dekkjum með betra grip og náði fyrir vikið að skjóta sér framfyrir Hlyn og Halla þegar nokkrir hringir voru eftir.
Halli endaði nokkuð öruggur í 2. sæti, en Hlynur, sem var í öruggri stöðu í 3. sæti, lenti í smá ógöngum og tjónaði bíl sinn lítillega á lokasprettinum. Þetta varð til þess að hann tapaði hraða og svo í ofanálag hafði hann nælt sér í 3 sekúndna tímarefsingu fyrir að þvera brautarmörk. Í millitíðinni var Hannes í 4. sæti og minnkaði bilið hratt, en Hlynur slapp svo sannarlega með skrekkinn, því þegar hann lauk keppni og þessar 3 sekúndur bættust við, þá munaði ekki nema einum hundraðastahluta úr sekúndu milli hans og Hannesar, sem endaði í 4. sæti. Hannes lenti í tjóni snemma í keppninni og þurfti fyrir vikið að taka óplanað þjónustuhlé, sem kostaði hann þónokkurn tíma, en keyrði þess utan eins og herforingi og náði hraðasta hring í keppninni. Hann var sáttur með lokaniðurstöðuna, þó hann hefði eflaust viljað ná á verðlaunapallinn.
Hér má sjá úrslit og stöðu leika í Tier 1 deildinni:
Eftir fyrstu tvær umferðir deildarinnar eru það Kári í G&K Racing og Hlynur í liðinu Flash & Supergirl sem eru með þægilegt bil niður í næstu menn. Jón Ægir í Byko Racing Team og Halli í Team AutoCenter standa jafnir að stigum í 3.-4. sæti.
Í liðakeppninni er það G&K Racing sem er í forystu, en Team AutoCenter ekki mjög langt undan.
Tier 1 fréttir
Að lokinni keppni á miðvikudagskvöldinu dróg aðeins til tíðinda, en eftir aðeins tvær keppnir þá hefur stofnandi og liðsstjóri Hulk Racing ákveðið að draga sig í hlé frá Tier 1 deildinni. Eyjó, liðsfélagi hans, ætlar ekki að keyra undir nafni Hulk Racing einn síns liðs og mun mæta í næstu keppni með bíl sinn í nýju búning. Hulk Racing er því leyst upp. Sindri hefur keppt ófáar keppnirnar í Tier 1 en ákvað að einbeita sér að erlendri mótaröð í Assetto Corsa Competizione og við óskum honum góðs gengis!
Fyrir vikið þurfti að leita eftir nýjum keppanda í Tier 1 og var farið eftir settum reglum í þeim efnum, en þar sem brottfall Sindra er svona snemma á tímabilinu var farið í listann úr inngöngu tímatökum Tier 1 sem haldnar voru í aðdraganda tímabilsins. Í stað Sindra kemur Jónas Már Karlsson inn, en hann er spenntur fyrir tækifærinu og við hlökkum til að sjá hann á braut.
Einnig var "nýtt" keppnislið skráð í liðakeppnina, en það er liðið Flash & Supergirl. Eins og kom fram fyrir tímabilið þá höfðu Hlynur og Eva parað sig saman í keppnislið undir þessu nafni, en Eva hætti síðar við þáttöku á tímabilinu. Hlynur ætlar samt sem áður að keyra undir liðsnafninu þó hann sé einn síns liðs og verður eitt af tveimur liðum með einn ökumann. Hitt er liðið "F1 á Íslandi" sem er lið Guðmundar Orra.
Næsta umferð
Þriðja umferð GTS Iceland fer fram dagana 6.-7. október og verður keppt á japönsku kappakstursbrautinni Autopolis. Endilega fylgist með okkur á samfélagsmiðlum til að missa ekki af því sem er að gerast hjá okkur.
댓글